Úr viðjum vanans
Fæst njótum við þess munaðar að geta gert nákvæmlega það sem við viljum þegar við viljum – amk ekki alla daga. En þýðir það að við getum ekki orðið frjálsari í daglegu lífi?
Eitt af mínum uppáhalds lögum með Pink Floyd er Wish you were here. Það var ekki samið um hlekki hversdagsins, en það voru þó hughrifin sem það kallaði fram hjá mér sem unglingi. „We´re just two lost souls, swimming in a fish bowl, year after year…” Lítið vissi ég um lífið framundan, en upptendruð var ég þess fullviss að aldrei skyldi ég festast í hlekkjum hins hversdagslega lífs!
En hvað er frelsi – hvað táknar það í þínum huga? Hver og einn svarar því best fyrir sig, en hér eru nokkrir punktar sem vonandi geta kveikt einhverjar hugleiðingar um hvernig mögulega er hægt að verða frjálsari í hinum annasama hversdegi sem við búum flest við.
FARÐU EIGIN LEIÐIR

Veröldin er full af reglum, væntingum og viðmiðum. Er bráðnauðsynlegt að leika alltaf eftir reglum annarra eða uppfylla það sem aðrir búast við af þér? Stundum er gott að hrista upp í hlutunum og vera dálítill gallagripur! Best er að hafa sem fæstar reglur og bera daglegt líf sitt og ákvarðanir ekki saman við líf og ákvarðanir annarra. Það er frelsandi að fara óhikað sínar eigin leiðir.
VERTU FORVITIN/N

Láttu verða af því að kynna þér eitthvað sem þú hefur áhuga á. Farðu á námskeið, spennandi viðburð eða í bíó á mynd sem þér hefði yfirleitt ekki dottið í hug að sjá. Gerðu eitthvað nýtt, farðu út fyrir rammann, kynnstu nýju fólki og stöðum, borðaðu mat sem þú hefur aldrei smakkað fyrr. Eða kannaðu umhverfið á annan hátt en vanalega – hversu vel þekkirðu t.d. þína forvitnu nágrannaketti?
EINFALDAÐU LÍFIÐ

Því fylgir mikill léttir og frelsi að einfalda líf sitt – að búa til tíma og rými fyrir meira af því sem gefur manni gleði – og draga úr öllu öðru. Skoða t.d. þann tíma sem eytt er í tilgangsleysi, hluti sem þjóna ekki lengur neinum tilgangi í lífi okkar, samskipti sem taka meira en þau gefa o.s.frv. Eftir því sem rými eykst fyrir það sem gefur okkur mest, verður lífið innihaldsríkara – og við upplifum meira frelsi.
LEIKTU ÞÉR

Manstu hvenær þú opnaðir síðast augun að morgni, vissir nákvæmlega hvað þig langaði til að gera í dag og gast varla beðið eftir að byrja? Hvað ertu að gera þegar er svo gaman að þú gleymir stund og stað? Leyfðu þér að vera í þessu flæði, það er ótrúlega frelsandi að gleyma öllum skyldum af og til. Leiktu þér meira – miklu meira!