LANGAR ÞIG Í FERÐALAG?

 In Fréttir & fróðleikur

Álag og áhyggjur hafa náð þolmörkum og hugurinn er á yfirsnúningi alla daga. Jarðtengingin er horfin og við flögrum frá einu verkefni til annars án þess að klára nokkurn skapaðan hlut. Reiði og pirringur fer að gera vart við sig og okkar nánustu fá að kenna á því – svo ekki sé minnst á okkur sjálf, sem við rífum duglega niður með neikvæðum hugsunum. Við erum ekki nógu þetta eða hitt og allir í kringum okkur eru vanþakklátir og erfiðir. Upp rifjast gömul særindi og reiði sem við héldum að við værum löngu komin yfir, en svo er aldeilis ekki. Svo virðist sem okkur takist aldrei að gera neitt rétt, eða komast upp úr þeim hjólförum sem okkur finnst við vera föst í – hjólförum leiða, vana og vonbrigða.

Svona líður okkur stundum.

Aðra daga erum við virk, bjartsýn og vingjarnleg. Full athafnasemi og orku, erum öguð og einbeitt. Hlý, umhyggjusöm og örugg með okkur. Samverustundum með okkar nánustu fjölgar, við erum glöð og njótum þess að vera til.

Jafnvægi náttúrunnar

Flóð og fjara, nótt og dagur, ljós og skuggi – allar þessar andstæður finnum við á eigin skinni og líðan ekki síður en við sjáum þær í náttúrunni. Frumkraftar náttúrunnar eru því oft það besta sem við getum nýtt okkur til að bæta jafnvægi hugar, líkama og sálar. Rösk ganga í hífandi roki getur blásið burt neikvæðum hugsunum. Slökun og djúpöndun í heitu baði getur haft undraverð áhrif. Að fara úr skóm og sokkum á hlýjum moldarstíg og finna orkuna streyma upp í gegnum iljarnar gefur okkur jarðtengingu sem er engu lík.

 Þekkir þú þær leiðir sem hjálpa þér best að finna jafnvægi hugar, líkama og sálar?

Þekkir þú eldmóðinn og gleðina sem fylgir því að vera í essinu þínu?

Áttu örugg og einlæg samskipti við einhverja í lífi þínu?

Hvað viltu næra og byggja upp í eigin tilveru?

Veistu hvað þú átt best að gefa veröldinni?

Þessar hugleiðingar eru meðal þeirra sem gefa innblástur að forvitnilegu ferðalagi á nýju ári. Árið mitt 2019 gefur þér verkfæri og vettvang til að kynnast því hvernig frumkraftar náttúrunnar birtast í þér og þínu lífi – og hvernig þú getur nýtt þér þá til að auka jafnvægi þitt, sjálfsþekkingu og vellíðan. Bókin er byggð upp þannig að þú ræður ferðinni. Hún er þín – og aðeins þín. Hlustaðu á hjartað og mundu að eigið innsæi er þinn áreiðanlegasti vegvísir við allar aðstæður. Það er bæði frelsandi og valdeflandi að fylgja því án hiks!

Recent Posts