Einfalt er gott!

 In Fréttir & fróðleikur

Hefur þú hugleitt hvaða merkingu innihaldsríkt líf hefur fyrir þig? Nægur tími til að sinna hugðarefnum þínum, meiri ró, frelsi, gleði, samvera með þeim sem þykir vænst um – eða eitthvað allt annað?

Tími okkar er verðmæti og vert er að hugleiða vel hvernig við kjósum að verja honum. Áreitið frá umhverfinu er mikið og oft lúmskt. Markaðsöflin gera út á það að okkur vanti alltaf eitthvað betra og meira en við höfum – að við séum aldrei nóg og eigum aldrei nóg. Tími okkar fer því oft meira og minna allur í eitthvað kapphlaup og sókn eftir vindi – umgjörð sem stundum er svo frek á tíma og peninga að lítið svigrúm er til þess að vera bara til með sjálfum sér og fólkinu sínu – og njóta þess.

Það er frelsandi að einfalda daglegt líf sitt og aðstæður með það að markmiði að rýma til fyrir því sem raunverulega skiptir máli – og losa sig við það sem gerir það ekki. Þetta geta verið efnislegir hlutir, ábyrgð, upplifanir, sambönd, samskipti, venjur eða hvað annað sem er. Eftir því sem rými eykst fyrir það sem gefur okkur mest, verður lífið innihaldsríkara auk þess sem því fylgir mikill léttir að sleppa taki á því sem hindrar okkur og þjónar engum jákvæðum tilgangi.

Árið mitt 2020 – 12 skref til einfaldara lífs

Síðastliðin ár hef ég sjálf einfaldað líf mitt á mörgum sviðum. Ég hef líka verið áhugasöm um samfélög þeirra sem eru í svipuðum hugleiðingum, lesið talsvert um einfaldan lífsstíl og verið í hópum á samfélagsmiðlum sem hafa þennan tilgang.  Ég hef gefið út sjálfsræktardagbækur síðustu ár undir heitinu Árið mitt. Þær hafa haft mismunandi áherslur og í bókinni fyrir árið 2020 fannst mér tilvalið að þemað yrði einfaldur lífsstíll. Ég nýtti bæði eigin reynslu og góðar hugmyndir frá öðrum til að setja saman tólf markviss skref til einfaldara og innihaldsríkara lífs – eitt fyrir hvern mánuð.

 

Tólf skref – eitt í einu

Skrefin tólf tengjast mismunandi sviðum lífsins. Í hverju skrefi ákveður þú hvað skiptir þig mestu máli og skilgreinir þín verkefni. Hvað er það sem þú vilt meira af í líf þitt og hvernig ætlarðu að rýma til fyrir því?

EINFALT ER GOTT – HUGARFAR ALLSNÆGTA – RAFRÆNAR VENJUR – TÍMI ER VERÐMÆTI – HEIÐARLEG SAMSKIPTI – FJÁRMÁL – HEIMILIÐ – FÖT OG SNYRTIVÖRUR – NÆRING OG HEILSA – HEFÐIR OG VENJUR – GLEÐI – STÓRU MÁLIN

 

Í hverri viku ársins vinnur þú að þeim verkefnum sem þú hefur ákveðið. Þú getur einnig skráð hugleiðingar þínar og þakklæti og skipulagt þína stund — sem er tími sem þú tekur frá til að njóta einhvers sem gleður þig og nærir. Hvort sem það er einvera, samvera, góð ganga, jógatími, ferð á bókasafnið, baka eitthvað gott, rifja upp eitthvað sem gladdi þig áður eða prófa eitthvað alveg nýtt, þá er þessi stund eitthvað sem þú átt fyrir þig.

Árið mitt 2020 er einföld en innihaldsrík. Það var einstaklega gaman að búa hana til og ég vona að hún eigi eftir að gagnast þeim sem vilja taka markviss skref til einfaldara og innihaldsríkara lífs á nýju ári. Hún er væntanleg í október, en hægt er að tryggja sér eintak í forsölu og fá svo bókina senda heim.

smelltu hér til að skoða bókina betur og næla þér í eintak
Recent Posts