Að þakka lífsins lán
Hugarfar er ótrúlega stór áhrifavaldur á líf okkar og líðan. Vissulega gengur á með skini og skúrum og það eru ekki alltaf jólin, en við höfum val um hvert við beinum athyglinni. Viljum við dvelja við það sem miður fer eða einbeita okkur að öllu því sem vel gengur? Horfa á það sem við höfum eða það sem okkur skortir? Þetta getur verið línudans, en galdurinn er í raun einfaldur – sá sem telur sig alltaf hafa nóg mun aldrei skorta neitt.
Ýmsar rannsóknir, m.a. á sviði jákvæðrar sálfræði, hafa sýnt fram á ótvírætt gildi þess fyrir andlega og líkamlega heilsu að rækta með sér þakklæti. Svefninn verður betri og streita minnkar ásamt því sem líkur aukast talsvert á því að fólk rækti vel líkama sinn og sál. Einnig er það svo magnað að þegar við beinum sjónum okkar að jákvæðum hliðum tilverunnar er eins og allt það sem gott er laðist að okkur í auknum mæli – hvort sem það er fólk, aðstæður eða upplifanir.
Hvernig er hægt að rækta þakklæti?
Eins og svo margt annað þarf að iðka þakklæti til að það það verði sjálfsagður og eðlilegur hluti tilverunnar. Þekktasta leiðin til þess er líkast til að halda þakklætisdagbók. Prófaðu að staldra við t.d. í lok hvers dags eða hverrar viku og finndu nokkra hluti til að þakka fyrir – hugleiddu hvað hefur snert hjarta þitt síðustu daga, hvað eða hverjir hafa orðið þér til hvatningar á einhvern hátt, hvaða stundir hafa verið dýrmætastar o.s.frv. Gott er þá líka að muna eftir öllu því smáa í hversdeginum sem við svo oft teljum sjálfsagt. Hlýtt rúm, heimili og fjölskylda eru ekki lífsgæði sem allir hafa.
Fleiri leiðir til að leggja rækt við þakklæti
Fara í þakklætisgöngur þar sem við upplifum meðvitað allt sem gleður á leiðinni og vekur tilfinningu þakklætis. Ilmur af gróðri, sjávarniður, hlátur barna á leikvelli, ilmur af brauði úr bakaríi, kettir sem skjótast um í görðum. Allt þetta er hægt að þakka. Hvað vakti með þér tilfinningu þakklætis í göngutúr dagsins?
Fátt jafnast á við að taka daginn snemma og upplifa í næði þakklæti fyrir nýjan dag. Prófaðu að skapa þér slíka stund að morgni, t.d. í nokkra daga til að byrja með. Þú getur lesið í góðri bók, farið í góða sturtu, stutta göngu eða einfaldlega notið þess að vakna á undan öðrum, drekka kaffið þitt í næði og hlakka til dagsins framundan. Hvernig tekur þú á móti nýjum degi?
Að tjá þakklæti sitt í orði og verki er yndislegt og áhrifaríkt – bæði fyrir þann sem gefur og þann sem þiggur. Reyndu þá að lýsa því í einlægni hvaða jákvæðu áhrif viðkomandi hefur haft á líf þitt. Þetta getur þú gert með orðum – bréfi, kveðju, heimsókn, eða í verki – sýnt áhuga og umhyggju, boðið fram aðstoð o.s.frv. Hverjum vilt þú þakka?
Að iðka þakklæti með öðrum eykur traust og einlægni í samskiptum og byggir upp nánd. Það er því tilvalið að gera skemmtilegar þakklætisæfingar með til dæmis góðum vini, maka eða börnum. Með börnum er til dæmis hægt að halda saman þakklætisdagbók, nýta alla samveru til að veita athygli því sem gott er í umhverfinu, eiga saman þakklætisstund fyrir háttinn, vinna með allskyns þakklætisföndur og ótalmargt fleira.
Allar þessar þakklætisæfingar og fjölmargar aðrar er að finna í bókinni ÞÖKK TIL ÞÍN. Í bókinni hefurðu líka pláss til að halda þakklætisdagbók, teikna, líma inn myndir eða hvað annað sem þér dettur í hug – á eigin spýtur eða með öðrum. Prófaðu sem flestar æfingar og komdu þér upp þínum eigin þakklætisvenjum!