Að leyfa ljósi sínu að skína

 In Uncategorized

Kulnun í starfi hefur verið mikið til umræðu að undanförnu, en langvarandi álag, streita og alvarleg einkenni hennar hafa í mörgum tilfellum orðið þess valdandi að einstaklingurinn er kominn í þrot andlega og líkamlega og jafnvel óvinnufær. Margt hefur verið rætt um ástæður þessarar andlegu og líkamlegu örmögnunar sem kulnun er, en athygli almennrar umræðu virðist aðallega hafa beinst að starfstengdri streitu og álagi, starfsumhverfi, vinnustaðamenningu og fleiri starfstengdum þáttum. Ástæður kulnunar eru þó líkast til margslungnar og geta tengst beint starfi viðkomandi, persónulegum eiginleikum og aðstæðum eða samspilinu þar á milli.

AÐ HAFA TÆKIFÆRI TIL AÐ NÝTA STYRKLEIKA OKKAR

Öll þörfnumst við þess að finnast við vera til einhvers gagns í tilverunni. Að hafa tækifæri til að nýta styrkleika okkar og upplifa tilgang þess sem við höfum fram að færa. Getur verið að skortur á slíkri upplifun sé í einhverjum tilvikum stærri ástæða kulnunar en aðrir og kannski áþreifanlegri þættir? Einhverjar rannsóknir hafa raunar sýnt fram á að fólk sem ekki telur sig hafa tækifæri í starfi til að gera sem oftast það sem það gerir best sé í meiri hættu en aðrir á því að brenna út í starfi. Vissulega er hægt að fá útrás fyrir þessa þörf á öðrum vettvangi en í vinnunni, en yfirleitt er það svo að starf og einkalíf hafa samverkandi áhrif á þann veg að ef allt er ómögulegt í vinnunni er erfitt heima líka og öfugt.

AÐ LEYFA HJARTANU AÐ RÁÐA NÁMS- OG STARFSVALI

Í grein Jóhönnu Vigdísar Arnardóttur verkefnastjóra í menntamálum hjá Samtökum iðnaðarins, Hjartað ráði för í námsvali, sem birtist í Morgunblaðinu þann 11. apríl s.l. vitnar hún í könnun frá árinu 2016 sem sýndi að 33-68% framhaldsskólanema (eftir námssviði) líkaði betur verkleg en bókleg fög í grunnskóla, en þrátt fyrir það völdu aðeins um 15% nýnema starfsnámssérhæfingu í framhaldsskóla. Hverju ætli þetta sæti? Hvers vegna leyfum við hjartanu ekki að ráða námsvali? Rökrétt er að álykta að hið sama sé uppi á teningnum þegar kemur að starfsvali. Bæði höfum við þá mögulega ekki þá menntun sem hugur okkar og hjarta hefði betur staðið til, og kannski ekki síður – mögulega eru það aðrir þættir en gleðin og löngunin til að blómstra sem ráða því hvar við mörkum okkur starfsvettvang.

VEIST ÞÚ HVAÐ KVEIKIR ÞINN NEISTA?

Veistu hvaða verkefni, aðstæður, athafnir os.frv. það eru sem gefa þér þá tilfinningu að þú sért í essinu þínu og sért að gefa það besta sem þú átt í það sem þú ert að gera? Finnurðu hvað það er sem vekur með þér gleði og ákafa? Áttu möguleika á því að gera meira af því í vinnunni?

Allt eru þetta spurningar sem geta átt við um lífið og tilveruna almennt, en óskandi væri að sem flestir gætu svarað þeim játandi um starf sitt, sem er svo stór hluti af lífi okkar.

Recent Posts